GREINAR

GREINAR

Ábyrgir fyrir afhendingu Keldnalandsins til Betri samgangna ohf.
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 26 Apr, 2024
Við Reykvíkingar upplifum nú breytingar úr; „Borginni sem var“, í „Borgina sem enginn veit hvernig verður.“ Hvort sem litið er til samgöngumála eða skipulagsmála þá er unnið að róttækum breytingum, boðið upp á óvissuferð, þar sem íbúar eru ekki upplýstir, en eiga bara að fylgja með.
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 13 Jan, 2024
Lögleysa og skortur á meðalhófi hjá Svandísi Svavarsdóttur og hennar gjörðir yfirtaka alla pólitíska umræðu
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 02 Jan, 2024
Hvernig geta Íslendingardregið dregið lærdóm af bókinni "The New Fish". Skaðlegt sjókvíaeldi er á ábyrgð Norðmanna og nokkurra íslenskra samstarfsmanna þeirra á Íslandi.
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 18 Dec, 2023
Hinn nýi fiskur (The New Fish).
Eftir Þorkell Sigurlaugsson 30 Sep, 2023
Það er ekki að ástæðulausu að fjölmargt hefur verið gagnrýnt í rekstri Reykjavíkurborgar, en þakka ber fyrir það sem vel er gert. Sviðstjórar og starfsfólk velferðarþjónustu hafa haldið borgarstjóra og borgarstjórn við efnið og mikilvægt að slá ekki slöku við. Ekki hef ég heyrt háværar raddir um stjórnleysi eða almennar kvartanir um rekstur og þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eins og í skólamálum, samgöngumálum og skipulagsmálum svo dæmi séu tekin. Nýlega fékk ég góða kynningu í öldungaráði á starfsemi velferðarsviðs, en þar eru samt áskoranir og tækifæri til að gera betur. Umfangsmikil starfsemi velferðarsviðs borgarinnar. Starfsemi velferðarþjónustu borgarinnar er afar umfangsmikil, en þar eru 117 starfseiningar þar sem 77 þeirra veita sólarhringsþjónustu. Árið 2022 veitti velferðarsvið yfir 19.000 íbúum þjónustu sem er 4.6% aukning milli ára. Starfsmenn eru um 3.500 í 2.300 stöðugildum. Heildarútgjöld til málaflokksins voru 49 milljarðar árið 2022 sem er um fjórðungur útgjalda A-hluta reksturs borgarinnar, næst á eftir skóla- og frístundasviði. Á ábyrgð bæði ríkis- og sveitarfélaga Ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu, en sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk, félagslegu húsnæði auk þess sem sveitarfélög bera ábyrgð á heimaþjónustu, félags- og tómstundastarfi o.fl. Árið 2009 þegar Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri var gerður tímamótasamningur þar sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, tók að sér heimahjúkrun samkvæmt sérstökum samningi. Það hefur sparað ríkinu milljarða þar sem með samþættingu er rétt þjónusta veitt af réttum aðila á réttum tíma, en jafnframt bætt þjónusta við borgarbúa. Reykjavíkurborg sinnir hjúkrunarþjónustu fyrir ríkið allan sólarhringinn og kemur oft í veg fyrir að kostnaðurinn lendi af fullum þunga á heilbrigðiskerfinu. Þjónusta við eldra fólk er vaxandi verkefni Um 4.500 einstaklingar 67 ára og eldri fá þjónustu velferðarsviðs og þar vegur heimaþjónusta og heimahjúkrun mjög þungt. Um 13% íbúa Íslands eru núna 67 ára og eldri, en verða 20% árið 2050. Víðtæk þjónusta Reykjavíkur við eldra fólk léttir mikið undir með heilbrigðiskerfinu. Verkefnið SELMA sem fór í gang hjá borginni árið 2020 er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og forða mögulega fólki frá innlög á bráðamóttöku vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima. Málefni fatlaðs fólks og barna Málefni fatlaðs fólks tekur til sín mikla og vaxandi starfskrafta og fjármuni. Þegar sveitarfélögin tóku yfir þennan málaflokk árið 2011 hafði ríkið sinnt þessum málaflokki illa og hann var vanfjármagnaður. Síðan hafa einnig komið íþyngjandi reglur og verkefni t.d. í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og mikilvæg NPA þjónusta hefur orðið mun umfangsmeiri. Umkvartanir eru mestar þar sem fatlað fólk og ekki síst fötluð og langveik börn eiga hlut að máli. Þar þarf borgin að bæta sig. Gott starfsfólk og sviðsstjórar Framþróun í þjónustunni í gegnum árin hefur veitt borginni forskot á hin sveitarfélögin og er það fyrst og fremst góðu starfsfólki og sviðstjórum velferðarsviðs borgarinnar að þakka. Sviðstjórar hafa haldið borgarstjóra og borgarstjórn við efnið enda allir haldið vel utan um sína starfsemi. Fyrst og fremsta vil ég nefna Láru Björnsdóttur sem á árunum 1995-2005 var frumkvöðull og baráttukona í að innleiða nútímalega velferðarþjónustu í borginni og hefur hlotið fjölda viðurkenninga á því sviði og mannréttinda, velferðar, félagsþjónustu og málefnum fatlaðs fólks. Reykjavík - fremst Norðurlandanna í velferðartækni á sviði félagsþjónustu Á sviði rafrænnar miðlunar er mikil þróun í gangi og í undirbúningi gangsetning öldrunarráðgjafar, fjarvöktun hjartabilunareinkenna, fjarstuðningur við líkamsrækt o.fl. Samkvæmt samantekt „Nordic Welfare Center“ þá sker Ísland, eitt Norðurlandanna, sig úr hvað varðar fjárfestingu við að innleiða velferðartækni í félagsþjónustu – þar er Reykjavíkurborg í forystu. Regína Ásvaldsdóttir f.v. sviðsstjóri velferðarsviðs á mikinn þátt í góðum árangri, en hefur nú tekið til hendinni á öllum sviðum sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Núverandi stjórnendur eins og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðlunar hafa fylgt þessu eftir m.a. með velferðartæknismiðju. Áskoranir og tækifæri til að gera enn betur Reykjavíkurborg má ekki missa forystu sína þegar kemur að málefnum eldra fólks og tryggja að þeir fái sem besta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Það dregur úr þörf á dýrum úrræðum innan Landspítala eða á hjúkrunarheimilum og eykur lífsgæði eldri Reykvíkinga. Tækifæri eru mikil í velferðartækni og rafrænni miðlun og þjónustu. Brýn þörf er aftur á móti á byggingu hjúkrunarheimila í borginni og óskiljanlegur og óábyrgur sá dráttur sem orðið hefur á því. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ávallt talað fyrir nýsköpun og stutt nýjar og notendavænum lausnir í velferðarþjónustu. Það verður gert áfram til hagsbóta fyrir alla borgarbúa sem þurfa á velferðarþjónustu að halda. Grein birt í morgunblaðinu 30. september 2023. Þorkell Sigurlaugsson er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
24 Feb, 2023
Eftir að hafa kynnst betur stjórnun Reykjavíkurborgar, hef ég sannfærst betur um hversu mikilla úrbóta er þörf. Borgaryfirvöld hafa misst stjórn á mörgum meginþáttum í rekstri borgarinnar og traust og tiltrú almennings hefur aldrei verið minni. Eitt dæmi af mörgum eru óafturkræfar breytingar á samgöngum og skipulagi borgarinnar, sem skerða munu lífsgæði íbúa og samkeppnishæfni atvinnulífs nái þær óbreyttar fram að ganga. Umferðatafir kosta almenning og fyrirtæki tugi milljarða á ári Það sem við upplifum daglega eru vaxandi umferðatafir og aukin orkusóun og mengun vegna þeirra. Þetta ástand mun bara versna á næstu árum. Ekki hefur verið staðið við úrbætur á fjölmörgum sviðum og vanmat er i gangi á mikilvægi bilsins fyrir almenning og fyrirtæki. Í stað þess að hafa hægrisinnaðan borgaraflokk í leiðtogahlutverki, sitjum við uppi með „borgararlínuflokk“, sem hefur þrengt að bifreiðaumferð, sker niður bílastæði og hvetur til byggingu hábyggðra íbúðablokka við umferðagötur, helst þannig að fólk geti heilsað nágrannanum í næsta húsi með handabandi út um gluggann. Borgarlína. Hvaða klisja er það? Í framhaldi af undirritun Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á ákveðna útgáfa af borgarlínu, með miðjusettum akreinum og fækkun akreina og bifreiða. Einu sinni var talað um að borgarlína yrði á teinum, svo var rætt um mismunandi farartæki á hjólum, en núna eru þetta lengri liðvagnar og styttri þegar með þarf og eru miðjusettir á flestum götum, akreinum fækkað og jafnvel bílaumferð alveg lögð af á sumum götum. Borgin fylgir þessu eftir með ríkisfyrirtækinu Betri samgöngur ohf. með beitingu skipulagsvalds, oft gegn mikilvægum samgöngubótum. Ekkert er hlutstað á þá sem hafa komið með hugmyndir um hagkvæmari útfærslu á borgarlínu og þöggun er í gangi. 15-20 ára bið eftir betri almenningssamgöngum Borgarlína er eitthvað töfraorð sem búið er að innræta hjá mörgum, en uppbygging hennar tekur a.m.k 15-20 ár og kallar á uppskurð á stórum hluta vegakerfis höfuðborgarsvæðisins. Það mun almenningur, og reyndar varla Vegagerðin heldur, sætta sig við enda færu þarna forgörðum gríðarleg verðmæti í núverandi vegakerfi. Er þá ótalinn gríðarlegur óbeinn kostnaður sem þetta óráð mun valda með áralöngum umferðatöfum á öllum helstu samgönguæðum og erfiðleikum í snjómokstri. Þá virðist talsverð upplýsingaóreiða vera til staðar um borgarlínuna. Framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. hefur sem dæmi nefnt að aðeins 20 mínútur muni taka að ferðast með borgarlínunni frá Keldnahverfi niður á Lækjartorg. Það verður að teljast afar ólíklegt miðað við þá hægferð sem borgarlínan mun keyra á og mikinn fjölda stoppistöðva. Klárum samgöngumálin með hraði Besta og einfaldasta leiðin að mati margra sérfræðinga á þessu sviði væri létt borgarlína sem snýst í megindráttum um að gera strætósamgöngur betri, m.a. með því að fjölga rauðum strætóakreinum hægra megin á akstursbrautum og fjölga ferðum. Fá betri og umhverfisvænni vagna, betri biðskýli og þjóna betur þörfum íbúanna. Þá tekur létta línan aðeins 3-5 ár i framkvæmd og með öllu því fjármagni sem sparast mætti fá hraðar mun betri almenningssamgöngur og afgreiðslukerfi sem afgreiddi farþega á augabragði og hægt væri að klappa fyrir. Einnig þarf að losa Miklubrautina við flest öll umferðaljós með 1-2 mislægum gatnamótum og stokkum eða göngum og málið er leyst. Keldnalandið Eitt af undarlegri skipulagsmálum í Reykjavík var að ríkisjóður afhenti Betri samgöngum ohf. 116 hektara Keldnaland og Keldnaholt til eignar og er það metið sem 15 milljarða framlag til samgöngusáttmálans. Þar sem ríkið á 75% í Betri samgöngum ohf. (annað í eigu sveitarfélaga, mest Reykjavíkur) var ríkisvaldið að afhenda landið að mestu sjálfu sér. Þurftum við enn eitt svona ríkisfyrirtæki? Ríkið hefur falið þessu félagi, sem er með gamalgróna Sjálfstæðismenn sem formann og framkvæmdastjóra, að annast skipulag og sölu svæðisins í þágu núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík. Betri samgöngur ohf. ætla svo að græða sem mest á sölu landsins og nýta fjármunina sem fást til framkvæmda á hinum fokdýra samgöngusáttmála. Óttast má að skipulag svæðisins snúast mest um peningalegan gróða, en ekki skipulagshagsmuni borgarbúa. Stjórnun snýst um að ávinna sér traust Eitt það mikilvægasta í stjórnun er að ávinna sér traust. Traust og virðing íbúa Reykjavíkur til borgarstjórnar hefur dalað verulega samkvæmt nýjustu könnunum enda hafa loforð fyrir kosningar verið svikin; - þau umtöluðustu snúa að leikskólamálum, skipulagsmálum og samgöngumálum að ógleymdum fjármálum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið þurfa hagkvæmar lausnir strax næstu árin og bráðnauðsynlegt er að endurskoða samgöngusáttmálann eins og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði til í sínum kosningaloforðum fyrir tæpu ári. Boltinn er hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokknum að sækja fram og borgarbúar vita að aðeins einn flokkur getur breytt stöðunni. Greinin birtist í Morgunblaðinu 23.2.2023
13 Mar, 2022
Reykjavík er að mörgu leyti draumahöfuðborg. Þessi smávaxna stórborg hefur flest það sem stærri systurborgir hafa upp á bjóða í menningu og afþreyingu – leikhús, tónlist, myndlist og urmul af frábærum veitingastöðum og öðrum menningartengdum stórborgargæðum. Vissulega er þetta smærra í sniðum en í alvöru stórborgum, ef svo má segja, en Reykjavíkurborg vegur það frábærlega upp með stuttum vegalengdum og góðu aðgengi, svo að fátt eitt sé nefnt af kostum smáborga. Stóra samgönguslysið í Reykjavík Borgir stækka á grundvelli þeirra öflugu hagkerfa sem borgarsamfélög mynda og gerir þeim kleift að bjóða borgarbúum margs konar og eftirsóknarverð lífsgæði. Á móti koma þeir ókostir sem þéttbýlið elur af sér og birtast ekki hvað síst í sígildum stórborgarvanda sem núverandi borgarstjórn hefur tekist að skapa tengdum sorphirðu og samgöngum. Stóra samgönguslysið sem borgarstjórn Dags B. Eggertssonar hefur alið af sér er þrenging bílaumferðar og fækkun bílastæða. Bíllinn er síður en svo að hverfa. Almenningssamgöngur þarf að bæta án þrengingu bílaumferðar. Nú þegar er búið að valda miklum skaða og þarf að vinna það til baka. Sorphirða í djúpum skít Enda þótt Reykjavík sé ekki fjölmennari en meðalstórt úthverfi við Lundúnaborg, hafa sígild stórborgarvandamál verið að festa sig í sessi. Vaxandi ónægja er í kringum sorphirðumálin, bæði við fyrirtæki og heimili og einnig í almenningsrými borgarinnar. Vel má vera að það geti verið skynsamlegt að fækka tunnum í sumum tilvikum og fjölga í öðrum sem lið í umhverfis- og loftsmálum. Það breytir því þó ekki að sorphirðan sjálf og sorpförgunin verður af augljósum ástæðum að vera í lagi. Hvorki sorphirðan né sorpförgunin er þó í lagi, sem er sárar en tárum tekur fyrir ekki stærra borgarsamfélag en Reykjavík er. Hvers vegna Reykjavíkurborg getur ekki fargað sorpi á sama umhverfisvæna hátt og gert er í hinum norrænu höfuðborgununum er hreinasta ráðgáta. Fordómar og þekkingarleysi vinstri meirihlutans gæti skýrt þetta að einhverju leyti. Nægir að vísa í dapurleg örlög Gæju í þeim efnum. Á heildina litið mætti því segja að sorphirða í Reykjavíkurborg sé í „djúpum skít“. Samgöngur í enn verri hnút Ef litið er til samgöngumálanna, þá standa málin þar í enn verri hnút en sorphirðumálin. Umferðartafir valda fyrirtækjum og launafólki milljarðakostnaði á ári hverju, svo að ekki sé minnst á þann skaðlega útblástur sem sleppur út af óþörfu þar sem hægagangurinn og stopp og start í umferðinni á endalausum umferðaljósum. Þessar umferðartafir má að mestu leyti rekja til framkvæmdastopps og afturhalds í skipulagsmálum. Hefði upphaflegum skipulagsáætlunum verið fylgt eftir væru 80-85% minni tafir en við glímum við í dag, við gætum sparað tugi tonna í eldsneytiskaupum og hlíft loftslaginu við þúsundum tonna af CO2 sleppur út. Að þessi þróun eigi sér stað á vinstrivakt núverandi borgarstjórnarmeirihluta er með ólíkindum miðað við öll loforðin um græna og umhverfisvæna borg. Þetta gerir umferðarmálin jafnframt að einu stærsta loftslagsmáli borgarbúa í dag. Losum okkur við þennan heimatilbúna vanda Reykjavík var til skamms tíma lítil stórborg með helstu kosti stórborgarinnar, en samt laust við helstu ókostina. Því miður er því ekki lengur að heilsa, aðallega vegna þess að núverandi meirihluti hefur misst grunntökin í skipulagsmálum. Þessari þróun þarf að vinda ofan af. Þessi litla stórborg hefur enn allar forsendur sem þarf til að veita helstu og eftirsóknarverðustu lífsgæði stórborgarinnar, án þess fórnarkostnað sem íbúar stórborga hafa þurft að sætta sig við. Staðreyndin er sú að Reykjavík getur gert svo miklu betur og losað sig við bróðurpartinn af heimatilbúna vandanum í sorphirðumálum og samgöngumálum. Hvernig getum við stöðvað fyrirtækjaflóttann? Fyrirtækjaflótti frá Reykjavík hefur færst í vöxt Ónægja fyrirtækjaeigenda við Laugaveg og nágrenni hefur sýnileg undanfarin ár og tengist ekki hvað síst því markmiði vinstrimeirihlutans að gera einkabílinn útlægan úr miðborginni. Nú bregður hins vegar svo við að óánægjan hefur breiðst út til annarra fyrirtækjaheilda, og reyndar ekki aðeins á meðal fyrirtækja. Ríkisstofnanir virðast einnig hugsa sér til hreyfings með flutningi yfir í nágrannasveitarfélög borgarinnar. Þessi þróun vekur upp ýmsar spurningar. Hvað veldur þessum flótta og hvernig má bregðast við þessari alvarlegu þróun? Hverjar eru helstu ástæður fyrirtækjaflóttans? Nokkrar meginástæður eru fyrir fyrirtækjaflóttanum. Ákefðin sem ríkt hefur í þéttingu íbúðarhverfa virðist hafa byrgt borgaryfirvöldum sýn á öðrum sviðum skipulagsmála. Úthlutanir atvinnulóða hafa verið í lágmarki og húsnæðismál fyrirtækja eru í sama ólestri og almenni húsnæðismarkaðurinn í Reykjavík. Einkabílaandúðin, sem borgaryfirvöld hafa því miður einnig orðið ber að, bætir ekki úr skák og yfirlýsingar um frekari þrengingar að einkabílnum geta vart talist aðlaðandi framtíðarsýn fyrir mörg fyrirtæki. Þá er engu líkara, en að vinstrimeirihlutanum láti sér afkomu og áhyggjur fyrirtækja í léttu rúmi liggja. Samskipti borgaryfirvalda við fyrirtæki einkennast í það minnsta af tómlæti ef ekki áhugaleysi í þeirra garð. Það er því ekki nema von, finnist fyrirtækjum þeim ekki lengur til setunnar boðið í Reykjavík. Hvað er til ráða? Við þurfum nýjan meirihluta í borgarstjórn, meirihluta sem kann að meta fyrirtækin í borginni að verðleikum, sem gerir ráð fyrir þeim í borgarsamfélaginu og kortleggur þarfir þeirra með tilliti til skiplagsgerðar. Við þurfum nýjan meirihluta sem lætur ekki einn þátt skipulagsmála byrgja öðrum mikilvægum þáttum sýn og leitar jafnvægis í skipulagsþróun borgarsamfélagsins. Þurfum að byggja upp á nýju landi Geldinganes, Álfsnes, Kjalarnes, Keldnalandi og Keldnaholti og meira í Úlfarsárdal. Og síðast en ekki síst þurfum við nýjan meirihluta sem telur sig ekki hafinn yfir það að eiga samtal fyrirtækin í borginni og spyrja hvað gera megi betur í þjónustunni við þau.
Þjónusta Reykjavíkurborgar við hreyfihamlað fólk og elstu íbúana
01 Mar, 2022
Ég hef lengi látið mig varða málefni hreyfihamlaðra með aðild að Sjálfsbjörg og sem formaður Sjálfsbjargarheimilisins 2008-2014. Árið 2015 var Ferðaþjónusta fatlaðra komin í mikið óefni þegar hún var flutt yfir til Strætó.
Eftir Helga Guðrún 01 Mar, 2022
Velferð íbúa í Reykjavík verður eitt af þeim málum sem ég vil sinna sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Rekstur velferðarmála er einn sá mikilvægasti og skiptir sköpum fyrir lífsgæði almennings í borginni, einkum eldra fólks og barna. Þetta er jafnframt umfangsmesti og kostnaðarsamasti útgjaldaliður borgarinnar næst á eftir skólamálum. Sem formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem kosin var á síðasta landsfundi höfum við í nefndinni lagt mikla vinnu við ályktun í velferðarmálum sem að hluta til var tekin inn í ályktun flokksráðsfundar í september á síðast ári. Nú fæ ég tækifæri til að sinna þessum áhersluatriðum hjá Reykjavíkurborg og stuðla að samvinnu við ríkisvaldið í þessum málum. Forvarnir Efla þarf forvarnir í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólum. Styrkja þarf samvinnu almennings, frjálsra félagasamtaka og félags- og heilbrigðiskerfis og tryggja aðgengi að stuðningsúrræðum. Leggja ber áherslu á snemmtæka aðstoð á unga aldri og tryggja rétta þjónustu á réttum stað og koma þannig meira í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma, örorku og jafnvel sjálfsvíg. Endurhæfing Leggja ber áherslu á endurhæfingu og fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir þá sem eru með skerta starfsorku vegna aldurs, sjúkdóma eða slysa. Allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Hlutverk, verkaskipting og samvinna ráðuneyta þarf að vera betur skilgreind, en flest ráðuneyti koma að endurhæfingu í mismunandi miklu mæli. Geðheilbrigðismál Geðheilbrigðismál eru mjög vanræktur málaflokkur innan heilbrigðis- og velferðarmála bæði hvað varðar húsnæði og þjónustu. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru með geðsjúkdóm sem megin skýringu. Leggja bera mun meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og snemmtæka íhlutun og efla þarf fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði. Huga þarf sérstaklega að málefnum barna og unglinga hvað þetta varðar. Th Næsta spítalabygging Fara þarf í staðarval á nýjum spítala á höfuðborgarsvæðinu. Í tengslum við heildaruppbyggingu Landspítala Miklar breytingar verða í velferðarþjónustu og samtímis þarf að huga að framtíðaraðstöðu fyrir aðra mögulega sjúkrahúsþjónustu og – byggingu á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum. Reykjavíkurborg getur farið í greiningu á slíkri þörf í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk og heilsugæslan geta farið í nánara samstarf enda eiga ekki öll mál að lenda inn á skurðarborði Landspítala. Ekki er ásættanlegt til framtíðar, m.a. vegna öryggishagsmuna, fjölbreytni og sérhæfingar fyrir starfsfólk og sjúklinga, að eingöngu eitt ríkisrekið sjúkrahús sé starfandi á höfuðborgarsvæðinu og það þurfi að sinni allri sjúkrahúsþjónustu. Málefni eldri íbúa Endurskoða þarf þjónustuþörf við eldri borgara varðandi almennt heilsufar. Samþætta má betur heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu auk sálgæslu og annars sem getur dregið úr einsemd aldraðra. Heilsugæslan þarf að nálgast eldra fólk fyrr á lífsleiðinni og miða þjónustu og úrræði við þarfir hvers og eins. Nokkurs konar millistig þarf að vera til milli hjúkrunarheimila og að dvelja heima. Málefni fólks með skerta starfsorku Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða bætur almannatrygginga í heild og horfa til þess að öryrkjar njóti þess og hafi ávinning af því að afla sér tekna og aðrir sem það ekki geta geti lifað mannsæmandi lífi. Fara þarf fram starfsgetumat sem taki tillit til greiðslu örorkulífeyris og hægt væri að gera samninga sem gefa öryrkjum hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins. Húsnæðismál Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði hvort sem það er í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Það er velferðarmál og ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði. e Einnig þarf að stuðla að því að myndast geti virkur leigumarkaður eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndum. Þannig verður til valkostur og valfrelsi enda vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja valkosti og frelsi einstaklingsins til að ákveða ráðstöfun sinna fjármuna. Nýsköpun og nýjungar í velferðarþjónustu Nýsköpun í velferðarþjónustu og nýtingu heilbrigðistækni og stafrænna lausna getur aukið hagkvæmni og bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Opinberir aðilar þurfa að fjárfesta mun meira á þessu sviði ekki síður en á sviði húsnæðismála og almennra tækjakaupa. Útflutningstekjur af heilbrigðis- og líftækni Síðast en ekki síst eru margvísleg tækifæri í auknum útflutningstekjum sem felast í þekkingu og sérstöðu Íslands á sviði heilbrigðis- og líftæknivísinda. Á Íslandi eru starfandi nokkur öflug heilbrigðis- og líftæknifyrirtæki, lyfjaframleiðslufyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Þetta gæti orðið mjög kröftug útflutningsgrein og skilað samfélaginu miklum launatekjum og gjaldeyristekjum. Þorkell Sigurlaugsson thorkellsig@gmail.com
18 Feb, 2022
Núverandi meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík hefur vanrækt atvinnutengsl algerlega — fyrirtæki flýja borgina og verkefni eigna- og atvinnuþróunar hafa verið færð undir skrifstofu borgarstjóra og týnst þar, auk þess sem Reykvíkingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á áratugafrestun Sundabrautar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn. Á næstu vikum fram að prófkjörsdegi mun ég fjalla sem víðast um helstu stefnumál mín sem borgarfulltrúa sem býð mig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Eitt af þeim málum er að stöðva fyrirtækjaflóttann úr Reykjavík. Marel fór frá Reykjavíkurborg - atvinnulífstengsl lengi verið í skötulíki Lítið hefur verið gert til að koma í veg fyrir að fyrirtæki hverfi úr borginni. Fyrsta dæmið sem ég man eftir og þekki vel er Marel, en ég var varaformaður í stjórn fyrirtækisins, þegar það hóf undirbúning flutnings úr Höfðabakka í Reykjavík árið 1996 í Molduhraun í Garðabæ. Þar fékk Marel nógu stóra lóð undir nýjar 12.000 fermetra nýbyggingu og höfuðstöðvar sínar en húsið var fljótlega stækkað enn frekar. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/306039/ Heilmikið tjón fyrir Reykjavíkurborg að missa þetta ört vaxandi alþjóðlega fyrirtæki til nágrannasveitarfélagsins, en hjá Marel starfa nú mörg hundruð manns í Garðabæ og 7.000 manns um allan heim í 30 löndum. Eitt mikilvægasta fyrirtæki Íslendinga og lang verðmætasta íslenska fyrirtækið í Kauphöll Íslands. Það tókst að halda Háskólanum í Reykjavík árið 2006, en ég þurfti að vekja borgina til umhugsunar um mikilvægi skólans og tryggja skólanum lóð til að halda honum í Reykjavík. Ekkert var búið að hugsa fyrir því. Dæmin eru alltof mörg Ég vil nefna nokkur nýleg dæmi um fyrirtækjaflóttann úr höfuðborginni. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins flutti til Kópavogs árið 2016, höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu til Kópavogs í lok sama árs og Tryggingastofnun ríkisins til Kópavogs árið 2019. Starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut flutti einnig í Kópavog árið 2019. Hafrannsóknarstofnun fór 2020 til Hafnarfjarðar, ýmis heilbrigðisfyrirtæki í Urðarhvarf í Kópavog árin 2019-2021 og Vegagerðin til Garðabæjar 2021. Þá fyrirhugar Tækniskólinn nú flutning til Hafnarfjarðar svo og Icelandair og Víkingbátar, öflugt og ört vaxandi fyrirtæki sem framleiðir allt upp í 30 tonna smábáta úr trefjaplasti. Það ætlar árið 2023 að flytja af Kistumel í Reykjavík til Hafnarfjarðar. Það nýjasta er svo flutningur ILVA sem fer í Kauptún í Garðabæ. Þó að þetta séu aðeins örfá dæmi af mörgum, bendir fátt til þess að vilji standi til þess hjá núverandi borgarstjóra eða meirihluta borgarstjórnar að snúa þessari þróun hratt og vel við. Skipta fyrirtækin borgina engu máli? Mikilvægt er fyrir Reykjavíkurborg að rækta tengsl við atvinnulífið. Ekki bara með fallegum glærukynningarfundum öðru hvoru í Ráðhúsinu heldur með daglegum tengslum. Frá 2017 og reyndar mörg ár þar á undan er búið að vera að undirbúa uppbyggingu á Ártúnshöfða, svokallaðan Borgarhöfða, en lítið gerst fyrr en skrifað var undir samning um verkefnið 2019. https://www.vb.is/frettir/mikil-uppbygging-artunshofda/155378/ Mikil hægagangur er enn á verkefninu og er þessi þróunarreitur á Ártúnshöfða hugsaður allt of langt inn í framtíðina. Þessi seinkun er eitt af mörgum dæmum um tafir, oft fyrir einhverja Borgarlínu sem bíða á eftir. Þarna hefði verið hægt að byggja 250.000 fermetra af íbúðum og atvinnuhúsnæði og algjörlega ástæðulaust að bíða eftir Borgarlínu, en stór hluti af skýringunni á að vera að þvinga fólk sem mest í almenningssamgöngur. Með öflugum ráðgjöfum hafa allir innviðir verið þarna fullmótaðir og löngu hægt að byrja. Að sjálfsögðu kvarta ekki þróunaraðilar og lóðaeigendur ekki opinberlega því þeir eru eins og aðrir t.d. verkfræðistofur og ráðgjafafyrirtæki háð góðvild Reykjavíkurborgar. Frábært verkefni Borgarhöfði en gengur hægt í höndum núverandi meirihluta. https://klasi.is/borgarhofdi/ Síðast en ekki síst fylgir fyrirtækjum oft fólk sem vill búa nærri vinnustaðnum, ekki hvað síst vegna sívaxandi umferðatafa; þetta eru skattgreiðendur sem greiða heimasveitarfélagi sínu útsvar. Reykjavíkurborg er áreiðanlega ekki með lista yfir ung vaxtarfyrirtæki, sem eru á höttunum eftir hentugu framtíðarhúsnæði í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Fyrirtæki í örum vexti geta ekki treyst á einhvern þéttingarreit á miðborgarsvæðinu eða jöðrum þess sem verða kannski tilbúinn einhvern tíma eftir 10-15 ár. Fáum fleiri fyrirtæki til Reykjavíkur og stöðvum flóttann. Áratugatafir Sundabrautar segja svo ekki síður sína sögu um vanræksluna í byggðaþróun Reykjavíkavíkurborgar, sem hefur tafið fyrir þróun á tugþúsundum íbúða- og atvinnulóða í Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. Svipaða sögu er að segja um umfangsmikla þróunarmöguleika í landi Keldna og Keldnaholti. Þá mætti koma mun meiri íbúabyggð fyrir í Úlfarsársdal. Það er bara ekki í boði sem stendur. Frestun Sundabrautar er þannig að mörgu leyti eitt stærsta hneykslið í langri skandalsögu núverandi meirihluta. Það má svo e.t.v. hafa til marks um einbeittan „brotavilja“ gegn Sundabrautinni, ef svo má að orði komast, að allar aðgerðir núverandi meirihluta hafa fram að þessu miðast við, að koma þessari framkvæmd út af kortinu, með einum eða öðrum hætti. Að ofansögðu er ljóst, að tryggja verður Reykvíkingum breytta og betri tíma í atvinnulífstengslum eftir næstu kosningar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn. Koma verður Reykjavík aftur í fremstu röð og að því vil ég vinna. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að fólkið sem hér býr og fyrirtækin sem hér vilja starfa finni að nærveru þeirra sé óskað innan borgarmarkanna. Þorkell Sigurlaugsson
Fleiri færslur
Share by: