Blog Layout

Umræða um sóun í heilbrigðiskerfinu

thorkellsig@gmail.com

Læknafélag Íslands er með áhugaverða umræðuþætti undir nafninu Læknaráð. Þessi 2. þáttur fjallar um sóun í heilbrigðiskerfinu.

Á mynd hér að ofan eru áttakendum í Þættinum var stjórnað af Sirrý Arnardóttur, þekktum rithöfundir, fjölmiðlakonu og háskólakennara. Viðmælendur voru þau Anna Björg Jónsdóttir yfirlæknir, Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir og formaður Félags ísl. heimilislækna, Ólafur Orri Sturluson læknir og Ragnar Freyr Ingvarsson gigtlæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur.


Margar áskoranir í heilbrigðismálum

Í þessum góða umræðuþætti Læknafélags Íslands um sóun í heilbrigðiskerfinu kom fram að margar áskoranir eru í heilbrigðismálum og margar þeirra valda sóun sem takast þarf að við. Ég vil hér rekja nokkur atriði sem voru til umræðu en bæti inn á milli ýmsu frá eigin „hjarta“ þ.e. réttara sagt eigin heila.

Þjóðin er að eldast hratt og innflytjendum fjölgar mikið sem kallar á lengri viðtals- og meðferðartíma. Álag eykst vegna ferðamanna ekki síst yfir sumartímann þegar skemmtiferðaskip eru um allt land og flestir sjúklingar kunna ekki önnur ráð en að fara á bráðamóttöku.

Það vantar mannafla á öllum sviðum auk þess sem sjúkrahús eru gömul, úrelt og of lítil. Þótt framkvæmdir séu í gangi er langt í umtalsverðar úrbætur eða til ársins 2030 þegar vonast er til að meðferðarkjarninn verði tilbúinn til notkunar. Umtalsverð stækkun og lagfæringar á Grensás-endurhæfingarmiðstöð mun þó ljúka á næstu tveimur árum.


Sóun á tíma lækna

Tíma lækna er sóað m.a. vegna þess hve álag er mikið á Landspítala (LSH) þar sem hægt væri að nýta heilsugæslu, heimahjúkrun og hjúkrunarheimili og létta þar með mikið álag á LSH. Einnig er oft farið í dýrar og óþarfa rannsóknir vegna tvíverknaðar í kerfinu og skort á yfirsýn um ástand einstakra sjúklinga. Allir sem hafa farið spítala kannast við sífellt endurteknar spurningar, sem skýrist m.a. af því að nauðsynlegt er að skrá upplýsingar aftur og aftur sem skýrist af sundurlausu upplýsingakerfi sem byggir á miklum bútasaum. Ekki er alltaf vitað að búið er að gera rannsóknir. Í þættinum nefndi Margrét Ólöf ágætt dæmi um sjúkling með botnlangabólgu sem þurfti að fara fyrst á heilsugæslustöð til að fá niðurstöðu úr rannsókn, síðan á bráðamóttöku í stundum sambærilegar rannsóknir og síðan á leigudeild sem tafði svo aðgerðina fram á næsta dag. 


Þróun, óskilvirkni og ofnotkun eða misnotkun upplýsingakerfa.

Origo sem var þróunaraðili og rekstraraðili heilbrigðislausna, hefur núna fært sína starfsemi undir dótturfélagið Helix sem mun sinna heilbrigðislausnum, sem er út af fyrir sig ágæt þróun. Origo og svo Helix hefur tekið við þróun á Sögu hugbúnaðarkerfisins sem er lykilkerfi, en þróun þess hófst fyrir bráðum 30 árum. Origo (Nýherji eftir nafnaskiptin) tók við rekstri og þróunar kerfisins á síðari stigum en að margra mati er þetta lykilkerfi á margan hátt úrelt kerfi. Spurning hvernig er hægt að komast út úr þessu kerfi og taka upp nýtt kerfi eða nokkur samtengd kerfi. Ný kerfi eins og Leviosa, kerfi Kara Conect og ýmis fleiri eru dæmi um kerfi sem hafa sprottið upp sem nýsköpunarlausnir fyrir heilbrigðiskerfið.

Heilsuvera er eitt mikilvægt kerfi sem hefur verið í þróun undanfarin ár hjá Origo og er orðið að sífellt stærra og mikilvægara upplýsinga- og samskiptakerfi sem bæði nýtist sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki. Kerfið hefur bæði orðið til að hraða og auðvelda utanumhald og samskipti við sjúklinga og milli heilbrigðisstarfsfólks. Kerfið hefur aftur á móti aukið mjög á þann tíma sem heilbrigðisstarfsfólk ver við tölvuna, vissulega í samskiptum við umbjóðendur sína. Á sama tíma hefur heilsuvera aukið þann tíma sem fer í tölvunotkun á sama tíma og bein samskipti við sjúklinga t.d. á heilsugæslustöð og jafnvel spítala hefur minnkað, bæði til góðs og ills. Sífellt meiri tími stundum meirihluti tími lækna fer við innskráningu upplýsinga og að svara misjafnlega mikilvægum upplýsingum.

 

Vantar úrræði á réttu þjónustustigi. 

Mikið skortir á að skjólstæðingar séu á réttum stað í heilbrigðiskerfinu og fái þar af leiðandi rétta eða viðunandi þjónustu. Milli 70 og 80 manns bíða reglulega á LSH eftir að komast á hjúkrunarheimili og dagur á sjúkrahúsi kostar frá 130-200 þúsund á sólarhring á um 50 þúsund á hjúkrunarheimili þetta kostar því ríkið aukalega um 2-4 milljarða aukalega á ári (þ.e. kostnað við spítalasjúkrarými umfram hjúkrunarheimilisrými) fyrir utan hvað þetta tekur upp dýrmætt rými á LSH þar sem fólk liggur þess í stað langtímum saman á bráðamóttöku og á göngum spítalans. Þetta er auk þess mannréttindabrot og frelsisskerðing fólks. Vel yfir 400 manns bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili í Reykjavík og oft álíka fjöldi um allt land þar af yfir 40 manns á Akureyri um þessar mundir.   


Mikill tími í óþarfa vottorð

Óskiljanlegt er hvers vegna leita þarf til heilsugæslustöðvar, heimilislæknis eða sérfræðings til að fá vottorð vegna veikindaleyfis í nokkra daga, til að komast í sjúkraþjálfun eða til ýmissa sérfræðinga. Tilvísunarkerfið ætti að leggja niður. Þetta eru rútínufyrirspurnir sem læknar neita nánast aldrei að samþykkja og veldur bara óþarfa tímasóun og kostnaði fyrir alla aðila. Hættum að skrifa tilvísun á barnalækna, í talþjálfun eða til iðjuþjálfa. Margt af þessu fer hvort sem er fram í gegnum tölvu og í langfæstum tilfellum er fólki hvort sem er neitað um slíkt. Hvernig litist fólki á að þurfa að fá vottorð til að mæta hjá tannlækni eða augnlækni. Enginn fer þangað að ástæðulausu.


Samkeppni er nauðsynlegt

Oft er orðið samkeppni bannorð þegar rætt er um heilbrigðisþjónustu og litið svo á að það eigi ekki vera samkeppni um sjúklinga eða milli heilbrigðisstofnana. Sama gildir um orðið einkarekstur þótt hann sé víða stundaður og nauðsynlegur og skynsamlegur og þá reynt að sneiða frá orðinu einkarekstur með því að nota orðið sjálfstætt starfandi. Ánægjulegt er að heyra læknana tala um mikilvægi samkeppni. Rifjað var upp þegar fleiri en einn spítali var í Reykjavík. Samkeppni hefur hjálpað til á mörgum sviðum og dæmi var tekið um heilsugæslustöðvarnar sem eru núna bæði einkareknar og af opinberum aðilum og þær opinberu hafa fengið aðhald af hinum einkareknu og sama má segja um menntakerfið t.d. háskólana þótt vissulega geti fjölgun orðið óhófleg og stuðlað að óskilvirkni.  Ríkið á alla vega ekki að einoka þróun heilbrigðislausna. Hvernig væri ef í dag væri bara til Tannlæknastofa ríkisins.   


Afturför á undaförnum árum, en ljós við enda ganganna

Því miður hefur í heildina litið ekkert lagast í heilbrigðismálum síðan 2007 þ.e. kerfislegum rekstri eins og skilja mátti a.m.k. einn viðmælanda í þættinum og þá ekki síst í samanburði við aðrar þjóðir. Fram kom að við höfum farið út 3 sæti í 10 sæti á einhverjum lista yfir gæði eða almennt skilvirkni eða þjónustu í heilbrigðiskerfinu þótt ekki hafi komið fram nákvæmlega á hvaða sviðum hefur orðið stöðnun eða afturför. En augljóslega stafar þetta af því að mun meiri framfarir hafa orðið í heilbrigðismálum annarra þjóða og eflaust er dæmi um það árangur Karolinska sjúkrahússins í Stockholm og að því virðist í Danmörku m.a. með byggingu fjölmargra sjúkrahúsa á þessum tíma. Sumt af vandamálunum finna sjúklingar einnig á eigin „skinni“.

Jákvætt er hversu mikill skilningur er á fjármögnun nýrrar byggingar fyrir Landspítala m.a. sjúkrahótels, meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, stækkunar Grensáss og nýtt geðsjúkrahús er komið á dagskrá. Meðal jákvæðra þátta er einnig að sprotafyrirtæki og nýjar tæknilausnir hafa sprottið upp. Sérnámið hefur byggst upp á Íslandi. Loksins er verið að fjölga þeim nemendum sem geta farið í grunnnám í t.d. læknisfræði. Skilningur er vonandi á því að nauðsynlegt er að læknar komi meira að stjórnsýslunni. Það eru fleiri lausnir í boði og vaxandi umræða um mikilvægi bættrar geðheilbrigðisþjónustu, endurhæfingar og forvarna. Vissulega jákvæðir þættir en halda varla í við þörfina. 


Þessir jákvæðu þættir sem nefndir er hér að ofan eru vonandi dæmi um aukinn skilning stjórnvalda og landsmanna almennt á mikilvægi kröftugrar uppbyggingar heilbrigðiskerfisins, hvort sem það snýr að húsbyggingum, menntun, tæknivæðingar og almennt bættrar þjónustu fyrir landmenn frá vöggu til grafar. 

Deila

Share

Share by: